Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2006 Forsætisráðuneytið

Viðskiptaþing Útflutningsráðs Íslands og Menningarstofu Færeyja

Ræða Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra á viðskiptadegi, í Norðurlandahúsinu í Færeyjum 6. apríl 2006

Lögmaður Færeyja, heiðraða samkoma.

Ég vil byrja á því að þakka Útflutningsráði Íslands og Menningarstofu Færeyja fyrir góða skipulagningu á þessum viðskiptadegi. Mér er kunnugt um að dagurinn hafi gengið vonum framar og nýst þátttakendum afar vel. Ég vil ennfremur nota tækifærið hér og þakka lögmanni Færeyja fyrir einkar góðar móttökur og skemmtilegan dag.

Hvergi er Íslendingur minni útlendingur en í Færeyjum og engum Íslendingi getur missýnst að í Færeyjum gistir hann hjá vinaþjóð sagði Hannes Pétursson skáld á ferð sinni um eyjarnar átján árið 1965. Mín upplifun hefur verið með sama hætti í þau fjölmörgu skipti sem ég hef heimsótt Færeyjar og svo á einnig við í þessari heimsókn. Virðist gestrisni Færeyinga engin takmörk sett.

Ísland og Færeyjar eru sannar vinaþjóðir og engum náskyldari. Samskipti þjóðanna eru einkar góð en mér hefur stundum fundist sem þau mættu að ósekju vera enn meiri. Einungis 400 kílómetrar aðskilja okkur eða rúmur klukkutími í flugi. Venjur okkar og hættir eru með viðlíka hætti og saga þjóðanna um margt lík, „enda biðu sömu tímar beggja þessara úthafslanda, þegar þau loks urðu hluti af leikvangi sögunnar – eftir ævalanga feluvist handan við sjónarrönd“, eins og Hannes Pétursson komst að orði.

Samskipti þjóðanna hafa þó aukist mjög á umliðnum árum, ekki síst á sviði verslunar og viðskipta. Er það vel. Frá árinu 1993 hefur verið í gildi samningur milli Íslands og Færeyja um fríverslun. Segja má að samningurinn sé hefðbundinn fríverslunarsamningur og vörusvið hans takmarkað við viðskipti með iðnaðarvörur og sjávarafurðir. Í ljósi hinna nánu tengsla milli Íslands og Færeyja var áhugi meðal beggja aðila á því að þróa samstarf landanna tveggja nánar á viðskiptasviðinu. Árið 2002 var ákveðið að hefja samningaviðræður við Færeyinga um gerð nýs samnings milli Íslands og Færeyja sem hefði það að markmiði að dýpka og breikka viðskiptasamstarf þjóðanna. Samningaviðræðurnar hófust vorið 2003. Ég man þetta vel þar sem ég gegndi starfi utanríkisráðherra á þessum tíma og stóð þar af leiðandi að viðræðunum af Íslands hálfu. Samningurinn var svo undirritaður hinn 31. ágúst 2005 í Hoyvík hér í Færeyjum.

Markmið Hoyvíkursamningsins er að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja. Samningurinn tekur meðal annars til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, samkeppni, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Samningurinn tekur einnig til fullrar fríverslunar með landbúnaðarvörur og hefur Ísland aldrei áður samið um fulla fríverslun með landbúnaðarvörur. Þá mælir samningurinn fyrir um bann við mismunun af öllu tagi. Þannig skulu Færeyingar og færeysk fyrirtæki njóta sömu réttinda á Íslandi og Íslendingar - og gagnkvæmt. Þá er samningnum ætlað að skapa ramma utan um aukna samvinnu milli landanna á ýmsum öðrum sviðum eins og menningarmálum, orkumálum, umhverfismálum, heilbrigðismálum, fjarskiptum og ferðaþjónustu.

Hoyvíkursamningurinn er því án efa víðtækasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert, og fer afar vel á því að slíkur samningur sé gerður milli þessara nánu vinaþjóða. Samningurinn er nú í fullgildingarferli á Íslandi, í Danmörku og Færeyjum og tekur vonandi gildi innan skamms. Bind ég miklar vonir við að gildistaka hans verði til þess að samskipti Íslands og Færeyja verði meiri og víðfeðmari en nokkru sinni áður. Þá væri til mikils unnið.

Í ljós þessa bakgrunns, og á þessum tímamótum í samskiptum þjóðanna, er mér mikill heiður og ánægja að fara fyrir viðskiptasendinefnd til Færeyja. Viðskiptadagur sem þessi þjónar ekki síst þeim tilgangi að viðhalda og styrkja samskipti þjóðanna á sviði verslunar og viðskipta, stofna til nýrra kynna og tækifæra, og vonandi viðskipta. Slíkur viðskiptadagur er einnig kjörinn vettvangur til að skiptast á skoðunum og læra hver af öðrum. Málstofurnar í morgun hafa efalítið orðið til þess að margur hafi orðið margs vísari. Þar voru tekin fyrir áhugaverð umræðuefni eins og gildi Hoyvíkursamningsins, hátækniiðnaður og endurvinnsluiðnaður. Þessi góða þátttaka á viðskiptadeginum sem blasir hér við í dag endurspeglar þann mikla og gagnkvæma áhuga sem er fyrir hendi meðal íslenskra og færeyskra fyrirtækja og athafnamanna.

Færeyjar er mikilvægur og vaxandi markaður fyrir íslenskar vörur og íslensk fyrirtæki. Í dag nemur útflutningur frá Íslandi til Færeyja um 1% af heildarútflutningi. Sama hlutfall á við um beinar fjárfestingar Íslendinga í Færeyjum. Þá hefur innflutningur frá Færeyjum snöggtum aukist. Neysluvenjur og hættir Færeyinga og Íslendinga eru um margt líkar, sem hvetur til aukinna viðskipta og verslunar milli þjóðanna. Nokkur íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl í Færeyjum og Íslendingum er að góðu kunnur Jakúp Jacobsen sem opnaði fyrstu Rúmfatalagersverslunina á Íslandi árið 1987 og er í hópi umsvifamestu athafnamanna á Íslandi. Er þá ótalið hið frábæra tónlistarfólk sem heiðrað hefur Ísland með nærveru sinni og hygg ég á engan hallað ef ég nefni Eivør Pálsdóttur sérstaklega í því samhengi. Þá prýðir færeysk myndlist heimili margra Íslendinga, og er ég þar sjálfur meðtalinn.

Kæru vinir.

Íslenska útrásin hefur verið mörgum yrkisefni að undanförnu og sitt sýnist hverjum. Margir erlendir fjölmiðlar, ekki síst í Skandinavíu, hafa dregið upp býsna dökka mynd af fjárfestingum Íslendinga erlendis og dregið í efa stöðu íslenska bankakerfisins og jafnvel íslenska hagkerfisins. Þessi umræða er að stórum hluta á misskilningi byggð. Á undanförnum árum og áratugum hefur íslenskt efnahagslíf tekið algerum stakkaskiptum. Ríkisvaldið hefur staðið að stórfelldri sölu á hlutum sínum í fyrirtækjum í samkeppnisrekstri og þannig aukið frjálsræði og fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi til muna. Þannig á sala bankanna og vöxtur þeirra óumdeilanlega hvað stærstan þátt í markaðssókn íslenskra fyrirtækja á erlendri grund. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu hefur tryggt íslenskum fyrirtækjum greiðan aðgang að mörkuðum Evrópu og fríverslunarsamningar, ýmist tvíhliða eða á vettvangi EFTA, hafa opnað dyr að nýjum mörkuðum. Þá var ráðist í umfangsmiklar breytingar á skattaumhverfinu sem atvinnulífið hefur notið góðs af. Þessar aðgerðir voru að mínu viti nauðsynlegar til að íslenskt atvinnulíf gæti þróast í takt við alþjóðlegar kröfur.

Og segja má að íslensk fyrirtæki hafi gripið tækifærið á lofti. Vöxtur þeirra á erlendri grund hefur verið mikill og virði hlutabréfa fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands hefur meira en þrefaldast síðustu þrjú árin. Þá hefur staða íslensku lífeyrissjóðanna hefur aldrei verið sterkari. Þetta þýðir að íslensk fyrirtæki og fjárfestar hafa verulegt bolmagn til fjárfestinga.

Gagnrýnin á bankanna, sem hvað hæst ber þessi dægrin, er oft sett fram af samkeppnisaðilum þeirra. Staðreyndin er einfaldlega sú að staða bankanna er mjög traust. Það er ekki einungis mín skoðun heldur einnig Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og allra helstu og virtustu matsfyrirtækja á alþjóðlegum vettvangi. Hagkerfið okkar stendur einnig traustum fótum. Hagvöxtur hefur verið um 5% á ári undanfarin ár, atvinnuleysi með því lægsta sem þekkist á byggðu bóli, afkoma ríkissjóðs er góð og skuldir hans óvíða minni.

Hin gagnrýna umræða erlendis ber ekki síst keim af skilningsleysi á íslenskum aðstæðum. Eins og allir hér inni þekkja geta hlutfallstölur í litlu hagkerfi auðveldlega verið blekkjandi. Einstaka framkvæmdir geta haft mikil tímabundin áhrif á okkar litla hagkerfi, eins og reyndin er nú á Íslandi. Það er eðlilegt en ekki öllum skiljanlegt. Stórar tölur fyrir okkur eru vart mælanlegar í alþjóðlegu samhengi. Sama má segja um umsvif bankanna. Þeir skarta stórum tölum í íslensku efnahagslífi, en litlum í stærri hagkerfum.

Fyrirsagnir blaðanna og neikvæð greinaskrifin þola því sjaldnast nánari skoðun. Íslenskir bankar og fjárfestar eru í grunninn ekki ólíkir bræðrum sínum og systrum annars staðar. Þeirra hvatir og markmið eru þau sömu og – að nýta sér viðskiptatækifæri sem gefast á mörkuðum sem áður virtu landamæri en gera ekki lengur.

Hins vegar sýnir þessi árangur fjárfesta og fjármálafyrirtækja á erlendri grund að litlar þjóðir, líkt og Ísland og Færeyjar, þurfa ekki að finna til minnimáttarkenndar. Margur er nefnilega knár, þótt hann sé smár. Nýlega voru íslenskar og færeyskar viðskiptasendinefndir á ferð á Indlandi, næstfjölmennasta ríki heims. Þar réði minnimáttarkenndin ekki ríkjum og ég veit til þess að sú ferð opnaði ýmsar dyr fyrir íslensk og færeysk fyrirtæki.

Ég efast ekki um að sami stórhugur hefur ríkt hér í dag og mun skilja eftir sig gagnkvæm tengsl og tækifæri til aukinna samskipta á sviði verslunar og viðskipta í nútíð og framtíð. Ég óska ykkur alls hins besta og hlakka til frekari samveru með ykkur nú í kvöld og á morgun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum