Hoppa yfir valmynd

17 Umhverfismál

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umfang

Starfsemi á málefnasviði umhverfismála er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og skiptist í fimm málaflokka. Í eftirfarandi töflu má sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024.

Heildarútgjöld

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum, verndun náttúrufarslegra verðmæta, minni myndun og urðun úrgangs, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og rannsóknum á þeim og leggi þannig af mörkum fyrir komandi kynslóðir. Öryggi almennings gagnvart náttúruvá verði eins og best verður á kosið.

Meginmarkmið málefnasviðsins:

  • Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis, aðlaga samfélag og lífríki að loftslagsbreytingum og vinna að kolefnishlutleysi Íslands.
  • Að koma á heildstæðu fyrirkomulagi og framkvæmd vöktunar og grunnrannsókna.
  • Að koma á hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans.
  • Að vernda náttúru Íslands, efla líffræðilega fjölbreytni og tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.
  • Að tryggja öryggi og eignir almennings gagnvart náttúruvá.

Fjármögnun

Helstu breytingar frá fjármálaáætlun 2024–2028 skýrast einkum af 500 m.kr. tímabundinni útgjaldaheimild til að fjármagna átak við gerð hættu- og áhættumats vegna eldgosa og annarrar jarðrænnar náttúruvár fyrir Reykjanesskaga. Þá koma inn fjárveitingar vegna ráðstöfunar losunarheimilda til flugfélaga sem nema 1.100 m.kr. 2025 og 2.000 m.kr. 2026 en falla þá niður. Á móti kemur að framlög vegna nýtingar losunarheimilda, skv. sveigjanleikaákvæði laga nr. 70/2012, lækka um 500 m.kr. frá og með árinu 2025 vegna þeirra verðlækkana sem orðið hafa á markaðsverði losunarheimilda frá gerð síðustu fjármálaáætlunar.

Að auki hækka framlög vegna styrkingar mannvirkjagerðar vegna ofanflóða á samtals um 1.500 m.kr. samkvæmt eldri fjármálaáætlun.

Á gildistíma áætlunarinnar hækka heildarfjárheimildir um 1.467 m.kr. sem að öðru leyti en því sem að framan greinir skýrist einkum af breytingum á fjármögnun með ríkistekjum en þær aukast um 2.254 m.kr. á tímabilinu. Þar af er aukning Endurvinnslunnar hf. áætluð 1.400 m.kr. í samræmi við áætlaðar verð- og magnbreytingar á umsýsluþóknun og skilagjaldi og aukning Úrvinnslusjóðs er áætluð 537 m.kr. vegna áætlaðra breytinga á úrvinnslugjaldi og vaxtatekjum en um er að ræða breytingu bæði á gjalda- og tekjulið. Einnig er áætluð tekju­aukning þjóðgarða sem nemur um 550 m.kr. sem skýrist einkum af auknum fjölda ferðamanna og aukinni áherslu á að ferðamenn greiði fyrir veitta þjónustu. Á móti kemur að vegna náttúru­váratburða er áætlað að tekjur á rekstrarlið Veðurstofunnar muni dragast saman um 200 m.kr. Einnig kemur til 238 m.kr. aukningar á almennu útgjaldasvigrúmi málefnasviðsins og 85 m.kr. til náttúrumiðaðra loftslagsmála. Á móti falla niður um 1.500 m.kr. fjárheimildir á tímabilinu og vegur þar þyngst 600 m.kr. niðurfelling fjárheimildar vegna flýtingar framkvæmda við ofanflóðavarnir sem kom inn í fjárlögum 2024 til eins árs, 600 m.kr. vegna grænna fjárfestinga í loftslagmálum, 205 m.kr. vegna úrbóta á innviðum í kjölfar óveðurs í desember 2019 og 100 m.kr. vegna innviðauppbyggingar, nýsköpunar og aðgerða í úrgangsmálum. Að auki er gert ráð fyrir 700 m.kr. aðhaldi í starfsemi málefnasviðsins á tímabilinu.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi

Helstu áherslur 2025–2029

17.1 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla

Verkefni

Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru: umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða, verndun líffræðilegrar fjölbreytni, innviðauppbygging og landvarsla, gróður- og jarðvegs­vernd, stöðvun eyðingar jarðvegs og gróðurs, eftirlit með nýtingu lands, endurheimt raskaðra vistkerfa, þ.m.t. birkiskóga og mýrlendis, og uppbygging og sjálfbær nýting skógarauðlindar. Um verkefni innan málaflokksins gilda einkum lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016, lög um landgræðslu, nr. 155/2018, og lög um skóga og skógrækt, nr. 33/2019.

Eftirtaldir ríkisaðilar falla undir málaflokkinn: Land og skógur, Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum og sá hluti Umhverfisstofnunar er lýtur að öðrum þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Einnig heyra undir málaflokkinn átta náttúrustofur víðs vegar um landið sem eru á forræði sveitarfélaga en fá rekstrarstyrk í gegnum fjárlög.

Helstu áskoranir

Líffræðilegri fjölbreytni er ógnað, s.s. vegna landnotkunar, nýtingar, ágengra framandi teg­unda, mengunar og loftslagsbreytinga, og land á Íslandi ber þ.a.l. mjög víða merki hnignunar vistkerfa. Þá eru ýmis svæði í náttúru Íslands undir töluverðu álagi sem getur leitt til rýrnunar á verndargildi þeirra og eru þau í umsjón nokkurra stofnana.

Um landið eru víða náttúrufyrirbæri og náttúruminjar sem m.t.t. líffræðilegrar fjölbreytni er mikilvægt að vernda en jafnframt eru þau oft hluti af landsvæðum þar sem landnotkun fer fram.

Hægt gengur að draga úr losun frá landi en losun gróðurhúsalofttegunda frá landi er stærsti einstaki losunarþátturinn í losunarbókhaldi Íslands. Losun frá landi er einkum frá þurrkuðu mýrlendi og þrátt fyrir stuðning ríkisins er lítill áhugi meðal landeigenda að taka þátt í verkefnum til að draga úr þessari losun og því er áskorun að fá þátttöku landeigenda í verkefnum til að draga úr þessum tiltekna þætti losunar.

Hvað varðar áskoranir í kynja- og jafnréttismálum málaflokksins eru þær óbreyttar frá fjármálaáætlun 2024–2028 og eru í samræmi við Stöðuskýrslu 2022.

Tækifæri til umbóta

Unnið er að stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi. Sú stefna mun hafa til hliðsjónar nýsamþykktan alþjóðaramma um líffræðilega fjölbreytni sem samþykktur var á aðildarríkjaþingi samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Þar eru sett fram markmið um verndun líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbæra nýtingu auðlinda lífríkisins og endurheimt vistkerfa.

Unnið er að því að byggja innviði til að vernda náttúru og stýra nýtingu svæða. Þessar aðgerðir hafa bætt verulega úr á mörgum þessara svæða, en tryggja þarf að innviðauppbygging fari fram að teknu tilliti til verndarhagsmuna svæða. Ná þarf fram aukinni samlegð í verk­efnum stofnana sem fara með umsjón á náttúruverndarsvæðum og öðrum svæðum sem njóta verndar. Náttúruvernd, sem byggist á ríkri aðkomu nærsamfélaga og öflugu samstarfi þeirra, sveitarfélaga og ríkis, getur stuðlað að jákvæðri byggðaþróun og sterkri umgjörð ferðamanna­staða, s.s. með stofnun þjóðgarða. Staðsetning starfsstöðva náttúruverndarsvæða í nær­samfélaginu ýtir undir frumkvæði íbúa og getur styrkt áhuga á náttúruvernd. Unnið er að fram­vindu náttúruminjaskrár, þ.m.t. framkvæmdaáætlun skrárinnar, þar sem afstaða, í samvinnu við landeigendur og aðra hagaðila, er tekin til friðlýsingar eða friðunar náttúruminja sem mikilvægt er talið að vernda.

Veruleg tækifæri liggja í samstarfi við landeigendur um endurheimt birkiskóga og kjarr­lendis með því að friða svæði fyrir búfjárbeit eða stjórna nýtingu á markvissan hátt og auka endurheimt votlendis. Ríkið getur gengið á undan í slíkum aðgerðum á löndum í þess eigu. Aukinn áhugi er á framleiðslu vottaðra kolefniseininga með aðgerðum í landnotkun sem leiðir til aukinnar fjármögnunar einkaaðila í slíkum verkefnum. Einnig er unnið að endurskoðun stuðningskerfis landnýtingar sem getur stuðlað að auknum áhuga á endurheimt votlendis.

Móta þarf skýrari viðmið fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni fyrir náttúrumiðaðar lausnir sem vinna gegn loftslagsbreytingum, s.s. í skógrækt. Jafnframt þarf að auka framboð af fræi trjátegunda sem minni ágreiningur er um notkun á, eins og af lerki. Til þess að bæta úr því er þörf á aðstöðu til framleiðslu á slíku fræi en unnið hefur verið að hönnun fræhúss til slíkrar framleiðslu.

Áhættuþættir

Ef ekki er unnið markvisst að stefnumótun um líffræðilega fjölbreytni með skýrri fram­kvæmdaáætlun mun það ógna enn frekar nú þegar viðkvæmri stöðu líffræðilegrar fjölbreytni á landinu og erfiðara verður að stemma stigu við hnignun vistkerfa landsins. Ef ekki er unnið að innviðauppbyggingu náttúruverndarsvæða, að teknu tilliti til verndarhagsmuna svæðanna, getur það haft í för með sér að verndargildi svæðanna rýrni og að reglulega þurfi að loka þeim til að bregðast við álagi. Ef ekki verður af aukinni samlegð stofnana gæti það torveldað ein­földun stofnanakerfisins.

Reglugerð ESB um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt (e. Land-use, land-use change and Forestry-LULUCF) leggur grunn að auknum skuldbindingum vegna landnotkunar frá og með árinu 2026. Ekki liggur fyrir umfang skuldbindinga Íslands á þessu stigi eða hvernig staðið verður við þær en fyrsta mat bendir til að mikið vanti upp á að núverandi umfang aðgerða í landnotkun dugi til að uppfylla þær.

Markmið og mælikvarðar

Sett eru tvö markmið fyrir málaflokkinn og standa þau óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun og er því vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þeirra. Yfirlit yfir markmið, mælikvarða og sett viðmið um framgang þeirra má sjá í meðfylgjandi töflu:

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

1. Að bæta ástand áfangastaða innan náttúruverndarsvæða.

15.1

Hlutfall metinna áfangastaða innan þolmarka (%).

88

95

100

2. Að auka árlegt um­fang uppgræðslu og endurheimtar vist­kerfa og skógræktar.

13.1, 13.2, 15.1, 15.2, 15.3

Árleg ný uppgræðslu- og endurheimtar­verkefni (ha).*

4.700

10.000

10.000

 

Endurheimt votlendis (ha).**

20

660

642

 

Árleg ný skógrækt (ha).***

2.800

3.000

8.500

 

Áætluð kolefnisbinding

(t CO2-ígildi á ári).

770.000

864.000

1.249.000

 

Áætlaður samdráttur í losun gróðurhúsa-lofttegunda frá landi vegna endurheimtar votlendis (t CO2-ígildi á ári).

10.250

14.685

20.591

* Áætlað – vinnslu á upplýsingum vegna 2023 ekki lokið.
** Er háð þátttöku landeigenda í verkefnum til að draga úr þessum tiltekna þætti losunar.
*** Hluti verkefna fjármagnaður af einkaaðilum að hluta.

17.2 Rannsóknir og vöktun á íslenskri náttúru

Verkefni

Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru vöktun og grunnrannsóknir á öllum þáttum þeirra málefnasviða er ráðuneytinu tilheyra og mynda grundvöll fyrir góða og upplýsta ákvarðanatöku, s.s. vöktun náttúru og líffræðilegra þátta, auðlinda (þ.m.t. orkuauðlinda), náttúruvár, áhrifa loftslagsbreytinga, landnýtingar og umhverfisþátta.

Eftirtaldir ríkisaðilar falla undir málaflokkinn: Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúru-rannsóknastöðin við Mývatn og Veðurstofa Íslands.

Helstu áskoranir

Hin stóra áskorun málaflokksins til langs tíma er að vinna að því að byggja upp og efla vöktun og rannsóknir umhverfisþátta með heildstæðum hætti enda hafa breytingar í einum þætti jafnan áhrif á marga aðra. Sem stendur er framkvæmd vöktunar og rannsókna brotakennd og nær ekki heildstætt til allra þeirra þátta sem mikilvægt er að vakta í þeim tilgangi að undir­búa löggjöf og skilvirkt regluverk sem grundvöll upplýstrar ákvarðanatöku. Staða þessa mikil­væga verkefnis er því miður sú að við stöndum flestum þeim þjóðum að baki sem við gjarnan berum okkur saman við og má í því sambandi nefna að kortlagningu jarð- og berggrunna, sem eru undirstöðuþáttur á þessu sviði, er löngu lokið í nágrannalöndunum en mun taka allt að 60 ár hérlendis með þeim úrræðum sem í boði eru í dag.

Áskoranir til skemmri tíma lúta að því að efla fyrst og fremst vöktun og rannsóknir á náttúru, náttúruvá og umhverfisþáttum, þ.m.t. áhrifum loftslagsbreytinga, sem grundvöll vandaðrar stefnumótunar og ákvarðanatöku á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála sem og verkefna flestra annarra málefnasviða stjórnvalda enda þarf t.a.m. í flestum framkvæmdum að huga að áhrifum á umhverfi.

Reglubundin vöktun náttúruvár er sem stendur ekki fullnægjandi og því er helsta áskorunin að tryggja fullnægjandi og reglubundna vöktun hennar svo senda megi viðbragðsaðilum nauð­synlegar upplýsingar um yfirvofandi náttúruvá með sem mestum fyrirvara. Fyrir liggja áætlan­ir um eflingu vöktunar sem felur m.a. í sér þéttingu mælanets með áherslu á gosbeltið til að tryggja að rýming í nágrenni eldstöðva geti hafist eins fljótt og auðið er ef kemur til eldgosa. Sambærilegar áætlanir liggja ekki fyrir hvað varðar ýmsar aðrar tegundir náttúruvár á borð við vatnsflóð, sjávarflóð og berghlaup.

Vöktun vegna áhrifa loftslagsbreytinga er nátengd gagnaöflun vegna náttúruvár og ljóst er að auka þarf jafnt og forgangsraða vöktun og rannsóknum á náttúru vegna tiltekinna hnatt­rænna loftslagssviðsmynda, t.d. um hækkun sjávarborðs, breytingu á úrkomumynstrum og vistkerfa í hafi.

Brýnt er að vakta vel þróun náttúrufars. Aukið álag á náttúruverndarsvæðum og loftslags­breytingar geta haft í för með sér miklar breytingar á náttúrufari og líffræðilegri fjölbreytni. Slík vöktun leggur grunninn að þekkingu á breytingum sem rekja má til umhverfis og mann­legra athafna og hvernig megi bregðast við þeim.

Tíðar náttúruhamfarir að undanförnu hafa leitt í ljós ýmsar áskoranir á sviði kynja- og jafnréttismála. Áhrifin lýsa sér m.a. í aukinni umönnunarbyrði, s.s. í tengslum við skert aðgengi að skólum og leikskólum, en einnig hættu á kynbundnu ofbeldi og auknu efnahags­legu misræmi, s.s. vegna atvinnumissis. Að öðru leyti standa áskoranir í kynja- og jafnréttis­málum málaflokksins óbreyttar frá fjármálaáætlun 2024–2028 og eru í samræmi við Stöðu­skýrslu 2022.

Tækifæri til umbóta

Margt hefur verið unnið hvað vöktun og rannsóknir varðar. Í kjölfar skýrslna um náttúruvá og loftslagsþolið Ísland er hafin vinna við hluta þeirra rúmlega 100 verkefna sem þar komu fram. Búið er að gefa út fjórðu samantektarskýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar og nú þegar er hafinn undirbúningur að efldu skipulagi fyrir starf næstu vísindanefndar. Byggt á skýrslunni og öðrum stefnugögnum vinnur ráðuneytið að kortlagningu á núverandi stöðu og framtíðarþörf vöktunar og rannsókna á þeim þáttum sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins og hyggst á grunni hennar móta stefnu og langtímaáætlun um eflingu og tilhögun vöktunar og rannsókna með heildstæðum hætti.

Yfirstandandi er tilraunaverkefni um aukna vinnslu og framsetningu gagna á Veðurstofu Íslands vegna náttúru- og loftslagsvár. Verkefnið er eitt þeirra rúmlega 100 verkefna sem að framan greinir en afrakstur þess er innlegg í frekari stefnumótun á sviði vöktunar og rannsókna.

Vöktun á náttúruverndarsvæðum sem eru undir álagi vegna ferðamennsku hefur þegar verið komið á.

Unnið er að því að uppfylla meginmarkmið Sendai-sáttmálans þar sem m.a. skal vinna að því að draga úr afleiðingum og áhrifum náttúruhamfara á líf og heilsu, mikilvæga innviði og grunnþjónustu.

Meðal annarra tækifæra til umbóta innan málaflokksins er að auka samlegð í starfsemi stofnana og í þeim tilgangi hefur verið sett fram frumvarp til laga um sameiningu stofnana á sviði náttúruvísinda og starfsemi sameinaðra stofnana taki gildi frá og með 1. janúar 2025.

Áhættuþættir

Miklar líkur eru á því að Íslendingar þurfi að takast á við tíðari og umfangsmeiri náttúru­váratburði á næstu árum en við höfum þurft að takast á við fram til þessa. Það hefur sýnt sig að grundvallarþáttur þess að geta brugðist við þeim er að til staðar sé nákvæm grunnkort­lagning jarð- og berggrunna landsins ásamt hættu- og áhættumati þeirrar fjölbreyttu flóru náttúruvár sem yfir getur dunið og við þurfum að takast á við. Án slíkra upplýsinga, byggðra á gögnum og vísindalegum rannsóknum, getur reynst erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir stjórnvöld að taka upplýstar ákvarðanir um forvarnir og viðbrögð sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleið­ingar, ekki aðeins fyrir öryggi íbúa, eignir og mikilvæga innviði og þjónustu, heldur einnig fyrir líffræðilega fjölbreytni í náttúru landsins, minjavernd og varðveislu menningararfs sem er m.a. mikilvæg undirstaða ferðaþjónustu og þjóðarvitundar.

Ófullnægjandi vöktunarstig náttúruvár getur aukið líkur á mann- og eignatjóni.

Loftslagsbreytingar munu að öllum líkindum hafa mikil áhrif á náttúrufar á Íslandi og haf­svæði við landið en skortur er á rannsóknum og vöktun á lífríki landsins og hafsins í tengslum við loftslagsbreytingar. Ef ekki er nægileg þekking á líklegum afleiðingum loftslagsbreytinga bæði á landi og sjó, þ.m.t. varðandi súrnun hafsins og verndarstöðu tegunda og vistgerða, er ekki hægt að laga samfélag að væntanlegum breytingum og byggja ákvarðanir, svo sem í skipulagsmálum og varðandi varnir gegn náttúruvá, á bestu upplýsingum um væntanlegar breytingar á sjávarstöðu, úrkomu, vatnafari og fleiri þáttum.

Markmið og mælikvarðar

Sett eru tvö markmið fyrir málaflokkinn og standa þau óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun og er því vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þeirra. Yfirlit yfir markmið, mæli­kvarða og sett viðmið um framgang þeirra má sjá í meðfylgjandi töflu:

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

1. Að efla vöktunar­kerfi vegna náttúru­vár.

13.1,

13.2,

13.3

Hlutfall árlegs mats á stöðu þéttleika mælikerfa við virkar eldstöðvar á grænu í litakerfi. (%)

80

95

95*

 

Hlutfall þess landsvæðis sem uppfært veðursjárkerfi nær til. (%)

50

66

100

2. Að efla rannsóknir á áhrifum loftslags­breytinga.

13.1,

13.2,

13.3

Hlutfall innleiðingar á miðlunar- og þjónustuáætlun skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands. (%)

40

60

100

 

Fjöldi uppsettra samtengdra sjávarborðs- og GPS-mæla í rekstri (til vöktunar og greiningar á sjávarstöðubreytingum meðfram strandlengju Íslands).

3

8

8**

*Stefnt að 100% en raunhæf óskastaða að ná 95% í mati.
** Gert ráð fyrir að átta mælar fullnægi vöktunarþörf og að uppbyggingu ljúki 2024.

Raunstaða og staða viðmiða fyrir alla mælikvarða beggja markmiða stendur óbreytt á milli fjármála­áætlana. Meginskýring þess er sú að atburðirnir á Reykjanesskaga hafa tekið til sín bæði fjármuni og mannafla sem að öðrum kosti hefðu nýst við framgang markmiðanna.

17.3 Meðferð úrgangs

Verkefni

Helsta verkefni málaflokksins er að draga úr sóun með því að koma í veg fyrir myndun úrgangs og auka endurnotkun, stuðla að bættri meðhöndlun úrgangs með endurvinnslu og annarri endurnýtingu og stuðla þannig að sem minnstri förgun, í anda hringrásarhagkerfis.

Eftirtaldir ríkisaðilar falla undir málaflokkinn: Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan hf.

Helstu áskoranir

Nýjustu upplýsingar benda til að hagkerfið á Íslandi sé einungis um 8,5% hringrænt. Línu­legt hagkerfi er því enn þá ráðandi hér á landi og auðlindanotkun er mjög víða ósjálfbær og afar brýnt að takast á við þau umhverfis- og loftslagsáhrif sem neysla í nútímasamfélagi hefur í för með sér.

Magn heimilisúrgangs hér á landi á hvern íbúa er með því mesta sem gerist þegar horft er til ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.

Endurvinnsla heimilisúrgangs er of lítil og um helmingi minni en að jafnaði í ríkjum Evrópusambandsins. Jákvæð þróun hefur verið á undanförnum árum í því að bæta meðhöndl­un úrgangs og stór skref voru stigin á sl. ári í umbótum á flokkun og söfnun heimilisúrgangs á landsvísu á grundvelli lagasetningar sem gerð var árið 2021. Til langs tíma hefur þróunin í málaflokknum þó verið of hæg og taka þarf fleiri stór og markviss skref, einkum í því augna­miði að auka úrgangsforvarnir og draga úr myndun úrgangs.

Þar sem konur verja mun meiri tíma en karlar í ólaunaða vinnu sem tengist heimilishaldi og umönnun er líklegt að auknar kröfur um endurvinnslu á heimilum hafi þau áhrif að auka vinnuálag kvenna. Ekki hefur verið gerð sérstök rannsókn þar að lútandi en mikilvægt er að taka tillit til þessa kynjahalla og kanna áhrif slíkra aðgerða við útfærslur lausna eins og hægt er og vinna að frekari gagnasöfnun.

Tækifæri til umbóta

Hafin er vinna við gerð nýrrar stefnu um úrgangsforvarnir og leggja þarf áherslu á að draga úr neyslu, nýta betur og minnka sóun.

Mikill vöxtur er í nýtnihagkerfinu svokallaða og tækifæri til enn meiri vaxtar. Um 40 aðilar hérlendis sinna sölu á notuðum fatnaði, húsgögnum og öðrum nytjahlutum. Líkur eru á að samanlögð velta stærstu verslananna með notaða nytjahluti hafi numið 1,7–2 ma.kr. á árinu 2022. Sé litið til veltu 10 stærstu verslananna sem selja notuð föt jókst sala þeirra um allt að 35% á milli áranna 2020 og 2021.

Eins og áður segir voru stigin mikilvæg skref til að stuðla að framþróun í meðhöndlun úrgangs árið 2021 með setningu laga nr. 103/2021 sem breyttu lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Lögin komu til fullrar framkvæmdar 1. janúar 2023 og eiga m.a. að stuðla að aukinni flokkun úrgangs í því augnamiði að auðvelda endurvinnslu hans og draga úr urðun. Nauðsynlegt er að styðja áfram við framkvæmd þeirra grundvallarbreytinga í úrgangsmálum sem lögin gera kröfu um, s.s. varðandi uppbyggingu innviða til endurvinnslu úrgangs hér á landi og aðra uppbyggingu sem styður við að urðun úrgangs verði hætt.

Frekari tækifæri til umbóta felast m.a. í þeim aðgerðum sem koma fram í Í átt að hringrásarhagkerfi, stefnu í úrgangsmálum, Úr viðjum plastsins, aðgerðaáætlun í plastmálefnum, og Minni matarsóun, aðgerðaáætlun gegn matarsóun.

Þegar þessum áskorunum er mætt ber að leggja áherslu á eflingu hringrásarhagkerfisins þar sem markvisst er komið í veg fyrir myndun úrgangs hér á landi og stuðlað að betri með­höndlun þess úrgangs sem myndast. Einn af lykilþáttunum í því sambandi er forgangsröðun sem skal leggja til grundvallar við meðhöndlun úrgangs, svokallaður úrgangsþríhyrningur.

Áhættuþættir

Að ekki takist að rjúfa þau sterku tengsl sem eru á milli neyslumynsturs nútímans og magns úrgangs sem fellur til. Jafnframt að breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 103/2021 leiði ekki til aukinnar endurvinnslu nægjanlega mikið og nægjanlega hratt, auk þess sem áhætta er fólgin í að uppbygging innviða hér á landi til meðhöndlunar úrgangs verði ekki nægjanlega hröð til að mæta því aukna magni af flokkuðum úrgangi sem full framkvæmd laganna er líkleg til að leiða til. Á það einkum við um lífrænan úrgang.

Enn fremur er fólgin í því áhætta að ekki náist samstaða um mikilvægar aðgerðir í mála­flokknum, s.s. um innleiðingu banns við urðun alls lífræns úrgangs. Afleiðingarnar gætu orðið þær að mikilvæg tækifæri sem felast í virku hringrásarhagkerfi tapist, Ísland sitji enn verr eftir en þegar er í málaflokknum og alþjóðlegar skuldbindingar verði ekki uppfylltar. Til að draga úr áhættunni er nauðsynlegt að ríkið styðji með markvissum hætti við sveitarfélög og atvinnu­líf í málaflokknum, beiti sér fyrir aukinni samvinnu og samráði við þessa aðila og standi fyrir öflugri fræðslu til almennings og annarra um úrgangsmál.

Markmið og mælikvarðar

Sett er eitt markmið fyrir málaflokkinn og stendur það óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun og er því vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þess. Yfirlit yfir markmið, mæli­kvarða og sett viðmið um framgang má sjá í meðfylgjandi töflu:

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025**

Viðmið 2030**

1. Að auka endurvinnslu heimilisúrgangs.

11.6

12.1,

12.5

Hlutfall heimilisúrgangs sem er endurunninn.

24%*

55%

60%

* Bráðabirgðatölur fyrir árið 2022 þar sem upplýsingar um hlutfall endurunnins heimilisúrgangs fyrir árið 2023 liggja ekki fyrir. Um er að ræða lækkun frá fyrra ári sem líklega má m.a. rekja til breytinga í úrgangs­bókhaldi.
** Viðmið um framvindu árangurs eru hér sett fram fyrir árin 2025 og 2030 í stað áranna 2025 og 2029 sem er gildistími áætlunarinnar.

17.4 Varnir gegn náttúruvá

Verkefni

Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru gerð hættumats vegna ofanflóða, eldgosa, vatns- og sjávarflóða, frumathugun og hönnun varnarmannvirkja, uppbygging og viðhald varnarmannvirkja. Eftirtalinn ríkisaðili fellur undir málaflokkinn: Ofanflóðasjóður.

Í ljósi aukinnar tíðni og umfangs náttúruváratburða á undanförnum árum er mikilvægt að móta framtíðarstefnu og verkefni er miða að forvarnastarfi vegna slíkra atburða til að tryggja öryggi íbúa, eignir og ómissandi innviði á borð við neysluvatn, vatn til húshitunar og raforku. Slík stefnumörkun er í fullu samræmi við Sendai-sáttmála Sameinuðu þjóðanna um að draga úr áhættu íbúa af völdum náttúruhamfara og Ísland er aðili að. Þær áskoranir sem slík stefnu­mótun hefði í för með sér myndi einkum snúast um forvarnir og umfremd (e. redundancy) í ómissandi innviðum en einnig uppbyggingu vöktunar og grunnrannsókna (sjá málaflokk 17.20 Rannsóknir og vöktun í náttúru Íslands).

Helstu áskoranir

Að tryggja ásættanlega uppbyggingu varnarmannvirkja og vöktun vegna ofanflóða (náttúruvár) þar sem hætta á mann- og eignatjóni hefur vaxið vegna áhrifa loftslagsbreytinga og veðurfarsbreytinga af þeim völdum.

Tímaramminn sem er til umráða til að ljúka þeim verkefnum sem hefur verið tekin ákvörðun um að framkvæma er stuttur.

Í skoðun er að verja jafnframt atvinnuhúsnæði og er úttekt á ofanflóðaaðstæðum á atvinnu­svæðum að ljúka.

Að tryggja uppfært hættumat og áhættumat fyrir hinar fjölmörgu tegundir náttúruvár svo kortleggja megi og forgangsraða aðgerðum er miða að forvörnum og viðbrögðum.

Líkt og kemur fram í málaflokki 17.2 fylgja ýmsar áskoranir tíðum náttúruhamförum, t.a.m. á sviði kynja- og jafnréttismála. Áhrifin lýsa sér m.a. í aukinni umönnunarbyrði, s.s. í tengslum við skert aðgengi að skólum og leikskólum en einnig hættu á kynbundnu ofbeldi og auknu efnahagslegu misræmi, s.s. vegna atvinnumissis. Að öðru leyti standa áskoranir í kynja- og jafnréttismálum málaflokksins óbreyttar frá fjármálaáætlun 2024–2028 og eru í samræmi við Stöðuskýrslu 2022.

Tækifæri til umbóta

Sú gjaldtaka sem innheimt er til að standa undir uppbyggingu varnarvirkja hefur í auknum mæli runnið til framkvæmda og fyrirhugað er að svo verði til næstu ára. Sú forsenda er lögð til grundvallar í uppfærðri áætlun um uppbyggingu varnarmannvirkja og þannig gert ráð fyrir að uppbyggingu ljúki árið 2033.

Stjórnvöld hafa ákveðið að ráðast í átak við gerð hættu- og áhættumats vegna náttúruvár á næstu árum. Í fyrstu verður áherslan á kortlagningu og gerð hættumats fyrir Reykjanes en síðar er ráðgert að önnur landsvæði og fleiri tegundir náttúruvár verði kortlögð og hættumetin.

Enn fremur er í undirbúningi að vinna að því að uppfylla meginmarkmið Sendai-sáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem m.a. skal vinna að því að draga úr afleiðingum og áhrifum náttúruhamfara á líf og heilsu, mikilvæga innviði og grunnþjónustu.

Fyrir dyrum stendur að móta stefnu um vöktun og rannsóknir sem tengjast náttúruvá þar sem skýr mynd yrði dregin upp af forgangsröðun verkefna sem myndi undirstöðu fyrir fjár­málaáætlanir stjórnvalda til framtíðar litið. Mikilvægt er að endurspegla þörf samfélagsins til að geta tekist á við náttúruvá sem og afleiðingar atvika af völdum náttúruvár.

Áhættuþættir

Mikilvægi varnarvirkja vegna ofanflóða er óumdeilt þar sem ofanflóð skera sig frá annarri náttúruvá hér á landi vegna þess að líkur á manntjóni eru meiri af þeirra völdum en vegna annarrar náttúruvár. Því þarf sífellt að endurskoða vöktun og hættumat vegna ofanflóða og gera strangari kröfur um viðbrögð við yfirvofandi flóðahættu.

Markmið og mælikvarðar

Sett er eitt markmið fyrir málaflokkinn og stendur það óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun og er því vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þess. Yfirlit yfir markmið, mæli­kvarða og sett viðmið um framgang má sjá í meðfylgjandi töflu:

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

1. Að tryggja fullnægjandi öryggi fyrir íbúa landsins gegn ofanflóðum.

11.1

11.5

Fjöldi lokinna

verkefna (af 49).

30

32

40

17.5 Sjórnsýsla umhverfismála

Verkefni

Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru loftslagsmál, stjórnsýsla náttúru­verndar­mála, mat á verndargildi og friðlýsingar, að tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, að tryggja heilnæmt umhverfi og öruggar neysluvörur og mat á umhverfisáhrifum, miðlun upp­lýsinga til almennings, þátttökuréttindi almennings og að tryggja réttláta málsmeðferð, stjórn vatnamála og fráveitumál. Loftslagsmál eru snar þáttur í stjórnsýslu umhverfismála. Undir þennan málaflokk falla fjárheimildir til loftslagsaðgerða og loftmengunarmála. Umfangs­mestu verkefni á sviði loftslagsmála eru aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem snýr að sam­drætti í losun og bindingu kolefnis, aðlögunaráætlun vegna áhrifa loftslagsbreytinga og stefnu­mótun fyrir kolefnishlutlaust Ísland.

Eftirtaldir ríkisaðilar falla undir málaflokkinn: Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Umhverfisstofnun og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Helstu áskoranir

Að tryggja að unnið sé að því að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist í loftslagsmálum með Parísarsamningnum og samstarfi með Evrópusambandinu og Noregi. Jafnframt er unnið að því lögbundna markmiði að Ísland verði kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040. Ýmis tækifæri eru til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í flestum geirum samfélagsins og auka kolefnisbindingu og samhliða virkja einstaklinga, atvinnulíf, félaga­samtök og stofnanir til að vinna að verkefnum í þágu loftslagsmála. Aðgerðaáætlun í loftslags­málum var sett fram árið 2020 og uppfærð árið 2024. Í áætluninni er mat lagt á væntan árangur þeirra aðgerða sem þar eru settar fram varðandi samdrátt í losun og bindingu kolefnis, auk þess sem fjármögnun er tilgreind þar sem við á. Ný markmið um samdrátt voru sett fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar 2021 og tekur uppfærsla áætlunarinnar mið af þeim.

Uppfylla þarf kröfur ýmissa reglugerða ESB í samræmi við skuldbindingar varðandi sam­drátt í losun og gæði gagna um mat á losun og bindingu vegna landnotkunar (e. LULUCF).

Að tryggja að íslenskt samfélag og lífríki búi að viðnámsþrótti frammi fyrir loftslagsvá og að aðlögun að loftslagsbreytingum sé fastur þáttur í áætlunum og starfsemi hins opinbera, stofnana, fyrirtækja og þekkt viðfangsefni meðal félagasamtaka og almennings. Gæta þarf þess að aðlögun sé hluti af ákvarðanatöku stjórnvalda og innan viðeigandi geira og atvinnu­greina svo greiningar og ákvarðanir taki til loftslagsáhættu og afleiðinga hennar. Til að ná þessum markmiðum, og byggt á fyrirliggjandi stefnu Í ljósi loftslagsvár (2021) og tillögu stýrihóps í skýrslunni Loftslagsþolið Ísland (2023), er yfirstandandi undirbúningur fyrir aðlögunaráætlun til innleiðingar á árinu 2025.

Að tryggja sjálfbæra nýtingu friðlýstra svæða með skilvirkri stjórnun og vernd. Þá felast tækifæri í því að þróa samstarf við landeigendur á friðlýstum svæðum og um verkefni í náttúruvernd á svæðum sem ekki hafa hlotið friðlýsingu eða friðun en teljast sérstök sakir landslags, gróðurfars eða dýralífs.

Að tryggja heildstæða og samræmda stjórn vatnamála, rannsóknir og vöktun sem byggist á samvinnu stjórnvalda, stofnana, ráðgjafa, sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Í kjölfar staðfestingar vatnaáætlunar í apríl 2022 ásamt aðgerða- og vöktunaráætlun og einnig nýlegra úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, s.s. varðandi Hvamms­virkjun, hefur stjórnsýsla vatnamála vaxið umtalsvert og fyrirséð er að hún muni aukast á næstu árum. Réttaráhrif vatnaáætlunar eru víðtæk, sbr. 28. gr. laga nr. 36/2011, þar sem opinberar áætlanir á vegum stjórnvalda skulu vera í samræmi við stefnumörkun um vatnsvernd sem kemur fram í vatnaáætlun. Vatnamálin varða marga málaflokka, s.s. leyfisveitingar til nýtingar vatns, lög um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, leyfi á grundvelli skipu­lagslaga, lög um mannvirki, virkjanir, fráveitur, sjávar- og landeldi, niðurdælingu kol­tvísýrings, neysluvatn, vatnstöku, hitaveitur, iðnað, landbúnað, vegagerð o.fl. Þá hafa vatna­málin fyrirsjáanlega þýðingu þegar kemur að flokkunarkerfi ESB fyrir sjálfbærar fjárfestingar (EU Taxonomy). Eitt umhverfismarkmiðanna sem starfsemi þarf að stuðla að er sjálfbær notkun og verndun vatns- og sjávarauðlinda, sem getur haft gríðarleg áhrif á sjálfbærniflokkun fyrirtækja og þannig mikla efnahagslega þýðingu.

Uppbygging og rekstur fráveitna er einn af lykilþáttum vatnsverndar og forsenda þess að skólp valdi ekki tjóni á vatnavistkerfum eða heilsu manna. Samantekt á stöðu fráveitumála sýnir að þörf er á uppbyggingu í þessum málaflokki svo tryggja megi að kröfur um fullnægj­andi meðferð skólps séu uppfylltar um land allt. Sveitarfélög bera ábyrgð á fráveitumálum en ljóst er að um kostnaðarsamar framkvæmdir er að ræða. Í júní 2020 var samþykkt breyting á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem gerir ráð fyrir að gert verði átak á þessu sviði í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Hvað varðar áskoranir í kynja- og jafnréttismálum málaflokksins eru þær óbreyttar frá fjár­málaáætlun 2024–2028 og eru í samræmi við Stöðuskýrslu 2022.

Tækifæri til umbóta

Búast má við að eftirspurn sveitarfélaga eftir styrkjum til uppbyggingar fráveitna verði á komandi árum talsvert umfram árlegar fjárheimildir til verkefnisins og mikilvægt að stjórn­völd í samvinnu við sveitarfélög forgangsraði framkvæmdum með þeim hætti að uppfylla megi markmið þess efnis að ástand fráveitumála verði með þeim hætti er stjórnvöld stefna að fyrir árslok 2028.

Samstarf milli stjórnsýslustiga um umhverfismál má jafnframt bæta og hefur ráðuneytið unnið að efldu samtali við sveitarfélagastigið, t.d. í gegnum landshlutasamtök með styrkjum til umhverfistengdra verkefna í sóknaráætlunum landshluta. Áfram verður unnið að efldri framkvæmd umhverfistengdra verkefna á sveitarfélagastigi og stuðningi við styrkjasókn í Evrópusjóði vegna þeirra.

Unnið er eftir umbótaáætlun um bætt gæði gagna vegna landnotkunar sem kynnt var í september 2021 en þá áætlun þarf að uppfæra til að tryggja að nýjum kröfum um gæði gagna sé mætt.

Yfirstandandi er vinna við að kortleggja stöðu og tækifæri til viðskipta með kolefnis­einingar hér á land, þ.m.t. mögulegs ávinnings af verkefnum sem framleitt geta slíkar einingar.

Ráðuneytið hefur lagt aukna áherslu á samstarf og stuðning ráðuneytisins við nýsköpunar­verkefni hvað varðar loftslagsmál, orkuskipti og hringrásarhagkerfið í samstarfi við fyrirtæki, opinber orkufyrirtæki og sveitarfélög. Mikilvægt er að efla enn frekar stuðning við nýsköpun á þessu sviði þar sem nýsköpun, rannsóknir og þróun leika lykilhlutverk í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Mikilvægt er að styrkja stjórnsýslu vatnamála. Tækifæri eru til þess að gera stjórn vatna­mála heildstæðari þar sem allir þeir sem nota vatn eða valda álagi á vatn starfi saman. Vatna­mál eru samvinnuverkefni stjórnvalda, stofnana, ráðgjafa, sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda og náttúruverndar- og umhverfisnefnda sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings.

Áhættuþættir

ekki náist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. vegna aukins umfangs í hag­kerfinu, skorts á samstöðu og samstarfi og að aðgerðir skili ekki þeim ávinningi sem stefnt er að. Með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og þeim aðgerðum sem þar eru settar fram er mark­visst stefnt að því að tryggja að markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aukna bindingu kolefnis náist.

Aukið tjón vegna loftslagstengdra atburða vegna þess að ekki næst að efla aðlögunargetu ríkis, sveitarfélaga, atvinnugreina, geira og almennings til þess að halda áhættu vegna áhrifa loftslagsbreytinga innan ásættanlegrar áhættu. Áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum er ætlað að veita utanumhald, yfirsýn, eftirfylgni og stöðutöku á vinnu við aðlögun.

Að ekki náist að tryggja framgang vöktunar- og aðgerðaáætlunar vatnaáætlunar þannig að til verði upplýsingar um ástand vatns þar sem nú þegar er fyrir gagnaskortur og hægt verði að þróa ástandsflokkunarkerfi fyrir þær gerðir vatns og þau vatnshlot sem falla innan þeirra. Slíkt getur haft áhrif á forsendur leyfisveitinga og valdið skorti á upplýsingum um ástand vatnshlota sem nýtast atvinnugreinum sem nýta vatnsauðlindina. Jafnframt að ekki takist að styrkja stjórnsýslu vatnamála til samræmis við auknar kröfur.

Að ekki náist viðunandi árangur einstakra sveitarfélaga vegna fráveitumála sem getur valdið óafturkræfum skaða vegna mengunar, t.d. á lífríki.

Markmið og mælikvarðar

Sett eru fjögur markmið fyrir málaflokkinn og felur það í sér eina breytingu frá fyrri fjár­málaáætlun. Að öðru leyti er vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þeirra. Yfirlit yfir markmið, mælikvarða og sett viðmið um framgang þeirra má sjá í meðfylgjandi töflu:

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

1. Að draga úr losun gróður­húsalofttegunda í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.*

13

Fjöldi aðgerða í framkvæmd.

34

50

50*

 

Samdráttur í samfélagslosun (ESR) gróðurhúsalofttegunda (%).

11**

22

36***

2. Að tryggja aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum.

13

Fjöldi málaflokka aðlögunaráætlunar með skilgreindar aðlögunaraðgerðir.

<5

5

12

 

Fjöldi sveitarfélaga með skilgreindar aðlögunaraðgerðir.

<5

10

60

3. Að efla náttúruvernd með friðlýsingu náttúruverndar­svæða.

15.1

Hlutfall friðlýstra svæða með stjórnunar- og verndaráætlun (%).

25

31

41

 

4. Að efla hreinsun fráveitu.

6.3

Hlutfall hreinsaðs skólps (%).

86****

88

95

* Við uppfærslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum hefur aðgerðum fjölgað mjög mikið. Í kjölfarið hefur verið ákveðið að fjarlægja þennan mælikvarða. Breyting á aðgerðum í framkvæmd m.t.t. eldri aðgerðaáætlunar var sú að árið 2024 voru 37 aðgerðir í framkvæmd, samanborið við 34 í ágúst 2023.
** Samdráttur miðast við árið 2022 sem eru nýjustu tölur.
***Ísland hefur skuldbundið sig til að ná 55% heildarsamdrætti í losun með ríkjum ESB og Noregi. Hér er átt við samdrátt í samfélagslosun (ESR), en áætlað hefur verið að hlutdeild Íslands verði 41% samdráttur.
**** Staða 2022.

Sú breyting sem orðið hefur á markmiðum í málaflokknum er fólgin í því að markmið um að bæta viðmót, gagnsæi og skilvirkni stjórnsýslu hefur verið fellt niður.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum